Hvernig á að para pöntun við reikning í Timian?

Í reikningamódúl Timian er hægt að para alla reikninga við samsvarandi pantanir.

Undir Innkaup - Pantanir - Reikningar má finna alla þá rafrænu reikninga sem berast frá birgjum í gegnum Timian. Til þess að hægt sé að samþykkja reikningana þarf að para þá við réttar pantanir, svo hægt sé að gera samanburð og uppfæra vöruliðina í takt við það það sem fram kom á reikning.

Timian reynir að para alla reikninga við pöntun sem er til staðar í kerfinu, en í sumum tilfellum gengur það ekki. Ástæðurnar geta verið einhverjar af eftirfarandi atriðum:

  • Það vantar Timian pöntunarnúmer á reikninginn.
  • Pöntunin er ekki til í Timian. Þetta getur til dæmis verið ef að pantað er frá birgja með öðrum leiðum eins og í gegnum heimasíðu birgja, tölvupóst eða síma.
  • Reikningurinn á ekki heima í Timian heldur á að fara beint áfram í fjárhagskerfið.

Þegar reikningur parast ekki sjálfkrafa við pöntun, þá þarf að gera það handvirkt. Hægt er að sjá alla óparaða reikninga með því að haka í reitinn "óparað".

Næsta skref er að velja reikning sem á að para við pöntun, og með því að smella á stækkunarglerið hægra megin í reikningslínunni ferðu í pörunarferlið.

Kerfið byrjar á að stinga upp á einni pöntun sem er talin líkleg til pörunar, fyrst og fremst miðað við tímasetningu pöntunar samanborið við reikning en líka með tilliti til verðs. Ef þessi pöntun passar ekki þá er hægt að skoða fleiri pantanir frá sama birgja sem gætu komið til greina.

Þegar rétt pöntun er fundin hakar þú við hana og velur að para reikninginn við pöntunina.

Í sumum tilfellum finnst ekki pöntun sem passar við reikninginn sem skoða á. Það getur t.d. verið ef pantað var utan Timian. Þá er hægt að stofna pöntun í kerfinu út frá reikningnum. Þetta er gert í sama ferli og sagt var frá hér að ofan, en í stað þess að haka í pöntun þarf að velja Búa til pöntun.

Þetta er mjög einfalt ferli, en hér þarf að velja afhendingarstað og kostnaðarstöð og smella á Staðfesta. Þar með hefur nú pöntun verið gerð í kerfinu sem samsvarar reikningnum.